Mannauðssjóðurinn Hekla og Starfsmennt gera með sér samstarfssamning
Nýr samstarfssamningur Heklunnar við Fræðslusetur Starfsmennt
Á dögunum skrifuðu Hrund Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssjóðs Heklu og Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Fræðsluseturs Starfsmenntar undir samstarfssamning. Nýi samningurinn tekur við af samningi frá árinu 2008 sem var þá gerður við fyrri mannauðssjóði. Mannauðssjóðurinn Hekla hefur það hlutverk að veita styrki til fræðsluverkefna á vegum sveitarfélaga og stofnana þeirra með það að leiðarljósi að stuðla að framgangi starfsfólks og framþróun með markvissri starfsþróun. Samhliða sjóðnum rekur Hekla Mannauðssetur sem hefur það hlutverk að vinna að fræðslutækifærum og miðlun þeirra. Mannauðssetur leggur áherslu á samvinnu við tengda fræðsluaðila.
Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 og er samstarfsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytis og flestra aðildarfélaga BSRB um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf á sviði mannauðseflingar.


